Ferill 96. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 96 . mál.


520. Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1993.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.



    Fjárlaganefnd hefur haft frumvarp til fjárlaga fyrir árið 1993 til meðferðar eftir 2. umr. Farið hefur fram hefðbundin athugun á tekjuhlið, viðtöl við forsvarsmenn B-hluta stofnana og teknar hafa verið ákvarðanir sem varða 6. gr. frumvarpsins.
    Síðbúnar og illa undirbúnar ríkisstjórnarákvarðanir, sem stafa af deilum í þingflokkum stjórnarliða og milli þingflokka þeirra, hafa gert nefndinni erfitt fyrir í starfi sínu. Ákvarðanir, sem birst hafa í yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar og verið kynntar nefndinni af einstökum ráðherrum, hafa verið dregnar til baka vegna innbyrðis sundurlyndis og snarpra viðbragða í þjóðfélaginu.
    Eftir standa þó ákvarðanir í frumvarpinu sem eiga enn eftir að auka á sundrungu og átök í þjóðfélaginu og auka óvissu um að fjárlagafrumvarpið sé raunhæft. Mun verða vikið að þeim atriðum nánar í umfjöllun um tekju- og gjaldahlið.

Tekjuhliðin.
    Í fjárlagafrumvarpinu var gert ráð fyrir að skatthlutfall í tekjuskatti fyrirtækja verði lækkað úr 45% í 33%. Eftir miklar kúvendingar fram og aftur endar skatthlutfallið í 39% og horfið er frá breytingu á reglum um útborgun arðs.
    Sömu sögu er að segja um álagningu virðisaukaskatts. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að afla 1.800 millj. kr. viðbótartekna með breytingum á lögum um virðisaukaskatt sem voru í því fólgnar að draga úr skattfrelsi ýmissa neysluþátta sem nú eru án virðisaukaskatts og afnámi endurgreiðslna til sveitarfélaga vegna ýmiss konar þjónustu.
    Þessar hugmyndir hafa breyst verulega. Í fyrsta lagi hefur verið ákveðið að taka upp nýtt þrep í virðisaukaskatti, 14% á ýmiss konar þjónustu. Jafnframt hefur verið fallið frá álögum á sveitarfélögin í þessu formi en ákveðið að þau leggi fram sérstakt framlag í Atvinnuleysistryggingasjóð. Í yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í efnahagsmálum frá 23. nóvember sl. var gert ráð fyrir að virðisaukaskatturinn skilaði 800 millj. kr. í auknum tekjum, en með breytingum á gildistökuákvæði hins nýja skattþreps er tekjuaukinn áætlaður 300 millj. kr. Þegar tekið hefur verið tillit til endurgreiðslna til sveitarfélaganna sem nema 600 millj. kr. og samdráttar vegna minnkandi veltu í þjóðfélaginu um 100 millj. kr. er niðurstaðan sú að áætlaðar tekjur af virðisaukaskatti lækka um 400 millj. kr. frá frumvarpinu. Rétt er þó að minna á að heildarupphæð virðisaukaskatts hækkar frá árinu í ár úr 39,6 milljörðum króna í 41 milljarð króna eða um 1.400 millj. kr.
    Samdráttur í veltu í þjóðfélaginu hefur einnig áhrif á innflutning og vörugjöld, svo og ýmsa aðra tekjuliði frumvarpsins.
    Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að sérstakt bensíngjald hækki um 300 millj. kr. til að mæta niðurfellingu jöfnunargjaldsins. Í tillögum, sem kynntar voru í nóvember, var svo gert ráð fyrir að innheimta 300 millj. kr. með hækkun bensíngjalds til að standa straum af atvinnuskapandi aðgerðum í formi viðhaldsverkefna þar sem kostnaður var áætlaður 500 millj. kr. Samkvæmt tillögum meiri hlutans er nú gert ráð fyrir að verja 100 millj. kr. til þessara verkefna, en innheimta bensíngjaldsins hófst með breytingu á bensínverði 1. desember sl. Til að mæta því liggur nú fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjáröflun til vegagerðar þar sem gert er ráð fyrir að innheimta sérstakt bensíngjald sem renni beint í ríkissjóð og er áætlað að það muni nema um 780 millj. kr.
    Mestar breytingar eru þó í álagningu tekjuskatts þó að það komi ekki fram í auknum tekjum ríkissjóðs vegna þess að endurgreiddir eru 4 milljarðar króna til sveitarfélaga til þess að bæta þeim tekjumissi vegna niðurfellingar aðstöðugjalds. Þessar breytingar fela þó í sér stórauknar skattaálögur á allan almenning. Ljóst er að ríkisstjórnin hefur gefist upp við að afla tekna frá þeim sem betur mega sín. Horfið hefur verið frá áformum um fjármagnstekjuskatt og ákvarðanir um takmarkaðan hátekjuskatt eru tímabundnar.
    Samtals nema þessar álögur 3.800 millj. kr. í tekjuskatti og eignarskatti, 1.400 millj. kr. í virðisaukaskatti, 780 millj. kr. í sérstöku bensíngjaldi, 50 millj. kr. í tryggingagjaldi, samtals 6.030 millj. kr. Engin vissa er fyrir því hver verðlagsáhrif til lækkunar verða af niðurfellingu aðstöðugjalds.
    Auk þessarar nýju skattheimtu fela breytingar á bótum almannatrygginga í sér álögur upp á mörg hundruð milljónir króna á þá sem minnst mega sín, m.a. barnafjölskyldur og sjúklinga.
    Athygli vekur að arðgreiðslur Landsvirkjunar, sem áætlaðar voru um 100 millj. kr., eru felldar niður. Arðgreiðslur Rafmagnsveitna ríkisins eru hins vegar óbreyttar en þær eru áætlaðar 30 millj. kr.
    Ljóst er að alger óvissa ríkir um hvort tekst að afla tekna upp á 1500 millj. kr. með sölu ríkiseigna. Forsenda fyrir því að það takist er sala lánastofnana sem ekkert liggur fyrir um hvort samstaða er um í stjórnarliðinu. Fjárframlög til Rannsóknaráðs eru skilyrt því að þessi sala gangi eftir. Á fskj. III kemur fram hver þróun fjárveitinga til rannsóknastofnana er og samanburður við önnur OECD-ríki.
    Nefndin hefur fengið upplýsingar frá Þjóðhagsstofnun um helstu breytingar á efnahagshorfum frá því að greinargerð stofnunarinnar um þær var gefin út 23. nóvember sl. Þar kemur fram að atvinnuleysi er meira en þar var gert ráð fyrir og fer sívaxandi. Af þessu leiðir tvennt, að útgjöld ríkissjóðs vaxa vegna aukinna atvinnuleysisbóta og tekjur dragast saman vegna minnkandi veltu.
    Um önnur atriði varðandi tekjuhlið vísast í álit minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem er birt sem fylgiskjal með áliti meiri hluta fjárlaganefndar.

Breytingar á gjaldahlið.
    Nefndin flytur sameiginlega nokkrar tillögur til hækkunar og lækkunar á gjaldahlið frumvarpsins. Auk þess flytur meiri hluti nefndarinnar nokkrar breytingartillögur sem tengjast sérstökum ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar og eru þær á ábyrgð stjórnarmeirihlutans. Minni hluti nefndarinnar stendur því ekki að þeim. Sérstaka athygli vekur að þrátt fyrir allar umræður um atvinnuskapandi aðgerðir stendur lítið eftir af áformum ríkisstjórnarinnar um aukið fjármagn til viðhalds opinberum byggingum og fjármagn til „framkvæmdaátaks vegna atvinnumála“ eins og það er kynnt í fjárlagafrumvarpinu. Það átak, sem fyrirhugað var í vegagerð, er skorið niður um 250 millj. kr.
    Auk þess er ljóst að algjör óvissa er um hve háa upphæð Jöfnunarsjóður sveitarfélaga þarf að greiða til Innheimtustofnunar sveitarfélaga vegna aukinna vanskila sem stafa af hækkun meðlagsgreiðslna.
    Nefndin kallaði á sinn fund forsvarsmenn nokkurra B-hluta stofnana. Þar kom m.a. fram að áhrif gengisbreytinga og verðlags leiða til þess að lánveitingar Lánasjóðs íslenskra námsmanna þurfa að hækka um 92 millj. kr. Þessu er mætt með aukinni fjárveitingu um 50 millj. kr. og auknum lántökum sjóðsins. Benda má á að stjórn Lánasjóðsins leggur til að rekstrarkostnaður hækki úr 73 millj. kr. í 87 millj. kr. Þetta er í kjölfar breyttra laga og úthlutunarreglna sem hafa haft í för með sér sérstakt vinnuálag og kallað á kerfisbreytingar í ár og á næsta ári. Við þessu var ekki orðið. Breytt lög og úthlutunarreglur Lánasjóðsins hafa nú þegar orðið til þess að gera námsmönnum með lítil efni ókleift að stunda nám. Auk þess hefur þessi breyting kostað ómælda fjármuni.
    Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að gjaldskrá Ríkisútvarpsins verði hækkuð um 4%. Áætlanir forráðamanna stofnunarinnar gera ráð fyrir 10% hækkun, enda kom aldrei til framkvæmda 4,5% gjaldskrárhækkun sem fjárlög þessa árs gerðu ráð fyrir og áætlanir voru miðaðar við. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir samdrætti í rekstri stofnunarinnar sem nemur um 30 millj. kr.
    Framlag til Byggingarsjóðs verkamanna er lækkað um 50 millj. kr. Til að halda óbreyttum framkvæmdum þrátt fyrir þennan niðurskurð er farið í hina furðulegustu leikfléttu. Útlán Byggingarsjóðs ríkisins til dagvistarheimila fyrir börn og aldraða eru lækkuð um 50 millj. kr. og lántökur þess sjóðs lækka um þessa upphæð. Á móti eru lántökur Byggingarsjóðs verkamanna hækkaðar um 50 millj. kr. Jafnframt hafa fjármálaráðherra og forsætisráðherra gefið félagsmálaráðherra það loforð að á árinu 1994 verði framlag til Byggingarsjóðs verkamanna aukið á ný.
    Lakari afkomu Rafmagnsveitna ríkisins er mætt með 4% gjaldskrárhækkun. Ljóst er hins vegar að verulegur vandi blasir við vegna styrkingar flutningslína í sveitum á milli byggðarlaga á svæði rafmagnsveitnanna. Bent er á að tillögur liggja fyrir frá stofnuninni um leiðir til fjármögnunar þessarar nauðsynlegu endurbyggingar, sjá fskj. IV.

Lokaorð.
    Fjárlagafrumvarpið 1993 kemur nú til lokaafgreiðslu. Sumar þær breytingar, sem gerðar hafa verið á frumvarpinu, einkum á tekjuhlið þess, valda mikilli röskun á högum almennings í landinu og metur Þjóðhagsstofnun kaupmáttarrýrnunina um 4,5%, en í spám ASÍ er hún metin allt að 7%. Verðbólguspá Þjóðhagsstofnunar er um 4%, en ASÍ telur að verðbólgan verði nokkru meiri. Spá Þjóðhagsstofnunar frá því í október gerir ráð fyrir 4% atvinnuleysi á árinu 1993. Nýjustu upplýsingar benda til þess að þetta hlutfall eigi eftir að hækka og vinnur Þjóðhagsstofnun nú að endurskoðun á spá sinni um atvinnuleysi í tengslum við heildarendurskoðun á þjóðhagsspá fyrir næsta ár.
    Í minnisblaði Þjóðhagsstofnunar til fjárlaganefndar, dags. 17. desember sl., sem birt er sem fskj. I með nefndaráliti þessu, eru eftirfarandi lokaorð:
    „Af þessu má sjá að flest af því sem hefur breyst frá fyrri áætlunum er ekki til uppörvunar. Það má því reikna með því að sú endurskoðun þjóðhagsspár, sem nú er unnið að, leiði til þess að dregin verði upp heldur dekkri mynd af horfunum en gert var í síðustu spá.“
    Vart getur þetta gefið ástæðu til bjartsýni um að þetta fjárlagafrumvarp standist og valdi jákvæðri breytingu í efnahagslífi landsmanna. Í áliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar um tekjuhlið frumvarpsins er auk þess lagt til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar vegna þess hve illa er staðið að undirbúningi frumvarpa til skattalaga.
    Minni hluti fjárlaganefndar mun sitja hjá við lokaafgreiðslu frumvarpsins en áskilur sér rétt til að flytja eða fylgja breytingartillögum sem fram kunna að koma.

Alþingi, 18. des. 1992.



Guðmundur Bjarnason,

Jón Kristjánsson.

Guðrún Helgadóttir.


frsm.



Anna Kristín Sigurðardóttir.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.




    Fylgiskjöl voru birt með framhaldsnefndarálitinu í þingskjalinu (lausaskjalinu). Um fylgiskjölin er vísað til þingskjalsins. Hér fer á eftir skrá yfir þau.

Fylgiskjöl:
    I. Þjóðhagsstofnun: Yfirlit yfir helstu breytingar á efnahagshorfum, 17. des. 1992.
    II. Fjármálaráðuneyti, efnahagsskrifstofa: Verðlagshorfur 1993, 12. des. 1992.
    III. Rannsóknaráð ríkisins: Súlurit þar sem fram kemur hver þróun fjárveitinga til rannsóknastofnana er og gerður samanburður við önnur OECD-ríki.
    IV. Rafmagnsveitur ríkisins: Línurit er varða styrkingu flutningslína á milli byggðarlaga og tillögur frá stofnuninni um leiðir til fjármögnunar.